Frá umdæmisstjórn
Kæru Inner Wheel konur.
Nú þegar sumri er farið að halla og mannlífið að komast í sinn reglubundna farveg bjóðum
við ykkur hjartanlega velkomnar aftur til hefðbundinna félagsstarfa.
Við í Umdæmisstjórninni erum fullar tilhlökkunar að takast á við verkefnin sem við okkur
blasa og að gleðjast með ykkur á starfsárinu sem framundan er.
Einkunnarorð sem alþjóðaforseti Inner Wheel, Dr. Kapila Gupta hefur valið fyrir starfsárið
2017-2018 eru:

“LEAVE A LASTING LEGACY” eða „GÖNGUM GÖTUNA TIL GÓÐS”
Í þessum orðum felst hvatning til okkar um að vera ávallt meðvitaðar um tækifærin sem
bjóðast til góðra verka og þor til að framkvæma þau af ábyrgð.
Í bréfi sínu segir Dr. Kapila meðal annars að við konur eigum ekki að vera skilgreindar eftir
því hverjar við erum heldur hvað við gerum. Í öllum störfum okkar eigum við að ganga
götuna til góðs, í smáu sem stóru. Ef við konur viljum að 2017-2018 sé okkar ár þarf að sýna
áræði og dug. Ekki sitja í sófanum heldur fara út og gera gagn. Finna eitthvað nýtt til að fást
við og losa sig við alla neikvæðni, í hvaða mynd sem hún birtist. Við eigum að takast á við
nýjar áskoranir og sýna samlíðan með fólki; ganga götuna til góðs og efla Inner Wheel.
Í lokin eru hvatningarorð til klúbbfélaga um allan heim til að sækja alþjóðaþingið vorið 2018 í
Melbourne því þar sé einstakt tækifæri til að hitta fólk, fá innblástur og nýjar hugmyndir og
efla vináttuna.
Eins og venja er mun ég heimsækja alla klúbbana á komandi mánuðum og eiga með þeim
kvöldstund, þar sem markmið IW eru höfð að leiðarljósi.
Haustfundur er fyrsta sameiginlega verkefni okkar með stjórnum klúbbanna á þessu
starfsári, þar sem farið verður yfir verkefni forseta, ritara og gjaldkera klúbbanna og stefnum
við að því að halda þann fund laugardaginn 28. október.
Á þeim fundi verður einnig tekið fyrir mál, sem ekki náðist samkomulag um á
Umdæmisþinginu 28. maí sl. á Selfossi. Spurning um hvort þörf sé á sérstökum aðila,
National Representative, til að annast samskipti okkar við útlönd eða hvort þau eigi áfram
að vera í höndum stjórnar Umdæmisins.
Við munum kynna þetta mál nánar með bréfi til allra klúbba og væntum þess að niðurstaða
fáist síðan með atkvæðagreiðslu á Haustfundinum.
Við viljum minna á að umdæmisgjöld þarf að greiða til umdæmisins fyrir lok október inn á
reikning umdæmisins nr. 0142-26- 012020 kt. 421089-2649.

Með Inner Wheel kveðju og góðum óskum til ykkar allra.
F.h. umdæmisstjórnar
Stefanía Borg Thorsteinsson, Umdæmisstjóri IW 2017-2018.

mánudagur 16 júlí 07 2018
Nýjustu fréttir
Gleðilegt sumar kæru Inner Wheel konur.Ég vil minna á umdæmisþingið, sjá nánar undir...
13. janúar hittust 52 Inner Wheel konur frá öllum klúbbunum í Umdæmi 136 í Hannesarholti og...
Haldið verður upp á alþjóðadag IW þann 13. janúar 2018 kl. 12 á hádegi í...