Skýrsla umdæmisstjóra í maí 2015-2016

Kæru vinkonur.

Það eru ýmsar tilfinningar sem fylgja þeirri tilhugsun að þessu starfsári, sem umdæmisstjóri IW á Íslandi, umdæmis 136, sé senn lokið. Við erum bara örfáir dropar í hafi alþjóðahreyfingarinnar, eða einungis 192 félagskonur af ríflega 103 þúsund félögum um allan heim. Við erum allar einstakar og færum samtökunum okkar einstaka reynslu okkar og starfsvilja.  Við störfum líka einhuga undir markmiðum og gildum Inner Wheel, sem er að efla sanna vináttu, samskipti og alþjóðlegan skilning. Mig grunar að þessi leiðarljós séu í daglegu brúki hjá okkur öllum, utan sem innan Inner Wheel. Markmið IW eru ekki bara flott á blaði, það er auðvelt að innleiða þau í dagleg samskipti, þau kosta ekki krónu og þau gefa til baka. Um leið og við virkjum þau í verki, um leið og við sýnum öðrum vinarþel, eflum samskipti við fólkið í kringum okkur og leggjum okkur fram við að sjá veröldina sem eina heild, þá víkkar sjóndeildarhringurinn og við sitjum uppi með nýjan vin og nýja sýn.
En það hefur ýmislegt drifið á daga mína í vetur.


Ágúst 2015
Embættisárið hófst formlega í ágúst.
Fyrsta embættisverkið var að kynna mér vel nýjan alþjóðaforseta Charlotte De Vos sem kemur frá Bruges í Belgíu og stefnumál hennar. Hún talar fyrst og fremst fyrir stefnumálum alþjóðahreyfingar Inner Wheel og samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og minnir á að Inner Wheel styður fyrst og fremst við konur og börn. Einkunnarorð hennar eru Unique and United, sem er í íslenskri þýðingu Einstök og Einhuga.
Annað embættisverkið var svo að taka við keðjunni góðu og embættinu sjálfu á þingi okkar í umdæmi 136, sem haldið var í ágúst 2015. Þingið í Hafnarfirði var vel heppnað í góðri samveru félaga frá öllum IW klúbbum í umdæminu.
Að loknu þingi hófst samstarf nýrrar umdæmisstjórnar, samstarfið hefur verið gott, gagnlegt og gaman. Með mér í umdæmisstjórn eru Sólveig Einarsdóttir, gjaldkeri, Soffía Heiða Hafsteinsdóttir, ritari – báðar úr IW Keflavík eins og ég. Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir, IW Hafnarfirði, fráfarandi umdæmisstjóri og Hrund Baldursdóttir, viðtakandi umdæmisstjóri. Takk kærlega fyrir samstarfið.


September 2015
Í september sá umdæmisstjórnin um að halda Norrænan fund, þar sem fulltrúar IW frá Norðurlöndunum hittast og eiga fund um stöðu landanna. Tilgangurinn er að sjá hvernig starfinu er háttað innan landanna og læra hver af annarri. Það er í fyrsta sinn sem slíkur fundur er haldinn á Íslandi og ég get stolt sagt frá því að fundurinn tókst vel, hann var málefnalegur og upplýsandi. Í anda Inner Wheel myndaðist góð vinátta og við efldum svo sannarlega samskiptin og jukum einnig  alþjóðlegan skilning. Svona fundur er einn af hornsteinum hreyfingar með slík markmið.


Október 2015
Október var líflegur mánuður, ég heimsótti 3 klúbba og við fengum góða gesti frá Danmörku. En október byrjaði samt með heimsókn á Rótarýþingið þar sem nýr umdæmisstjóri Inner Wheel fékk tækifæri til mér var boðið að ávarpa þingið.
Þann 9. október mætti ég á þing Rótarýmanna sem var skemmtilegt og áhugavert, og kvöldið einnig. Við gistum á hótel Borgarnesi og áttum góðar stundir með fulltrúum Rótarýklúbbs Keflavíkur, einnig kom Soffía, ritari umdæmisins, með manni sínum á þingið.
13. og 14. Október heimsótti ég 2 klúbba, IW Selfoss og IW Kópavog
Fundirnir voru notalegir og skemmtilegir. Hjá IW Selfossi var einn nýr félagi tekin inn í klúbbinn við hátíðlega athöfn félagskvenna, einnig voru stjórnarskipti. Tveir félagar voru teknir inn hjá IW Kópavogi og því gott tilefni til að gleðjast. Einnig voru stjórnarskipti hjá IW Kópavogi, enda fyrstu fundir vetrarstarfsins hjá báðum klúbbum.
15. október – forsetaskipti IW Keflavík
Ég fór ekki í opinbera heimsókn til IW Keflavíkur á októberfundi, enda í mörg horn að líta, því ásamt embætti umdæmisstjóra hef ég sinnt embætti forseta klúbbsins míns liðið starfsár, rétt eins og þær Soffía og Sólveig gerðu sem ritari og gjaldkeri umdæmisins og IW Keflavíkur.
22. október – heimsókn frá Danmörku
Inner Wheel eru alþjóðleg samtök þar sem vinátta, samskipti og alþjóðleg samskipti eru höfð í hávegum. Þannig kom það til að tvær vaskar konur, þær Alice Waldner og Kirsten Sörensen, sem voru að leggja í ferðalag hingað til Íslands, höfðu samband við mig og langaði að hitta IW félaga frá Íslandi ef kostur væri á því. Úr varð að þær áttu skemmtilegt kvöld með Þóru Grétarsdóttur og Sigríði J. Guðmundsdóttur frá IW Selfossi. Þær hittu okkur Soffíu líka næsta dag og við áttum frábært síðdegi saman, þar sem við ókum um Reykjavík, röltum um Hörpuna og sáum 360 gráður af Íslensku landslagi og enduðum á Lækjarbrekku í dýrindis kvöldverði. Alice er dugnaðarforkur og hefur átt frumkvæði að ýmsum fjáröflunarverkefnum hjá klúbbnum sínum í Kaupmannahöfn, núna síðast verkefni í Kambódíu.
31. október var komið að sameiginlegum fundi klúbba
Laugardaginn 31. október var sameiginlegur fundur allra klúbba í umdæmi 136 haldinn í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Þessi fundur er að festast í sessi og er einn megintilgangur hans að skapa vettvang upplýsingamiðlunar. Þar geta nýjar stjórnir fengið upplýsingar um embætti sín ásamt því að tengjast nýjum stjórnum annarra klúbba. Það er ekki oft á starfsárinu sem okkur gefst tækifæri til að tengjast og læra hver af annarri, en þessi vettvangur er kjörinn til þess. Við mættum kl. 10 og skiptum okkur niður á tvær stofur, í annarri komu forsetar saman, fyrrverandi, núverandi og vara forsetar, og þar var miðlað úr reynslubrunni hinna eldri og við lærðum hver af annarri. Í hinni stofunni söfnuðust saman ritarar og gjaldkerar, og þar var sama upp á teninginn, mikið skrafað og eitthvað lært. Eftir hádegi settumst við saman í stærri stofuna með nýjum vefstjóra umdæmisins, henni Kristjönu, og fór hún aðeins yfir heimasíðuna, bæði okkar og líka alþjóða síðuna okkar. Einnig ræddum við breytingar á heimasíðunni okkar hér á Íslandi.


Nóvember – heimsókn í klúbba
Þann 11. nóvember heimsótti ég IW Reykjavík á Hótel Sögu, og enn voru nýir félagar teknir inn. Erindið á fundinum var áhugavert en þar fjallaði Erna Indriðadóttir um heimasíðu fyrir aldraða sem heitir Lifðu núna. IW Reykjavík er fjölmennasti klúbburinn í umdæminu og það sást vel á mætingu á þennan fund.
17. nóvember – var komið að sameiginlegum fundi IW Reykjavík Breiðholt og IW Keflavík
Við hittumst á Kringlukránni, fundarstað IW Breiðholts þar sem jólin hringdu sig inn. Hólmfríður Pétursdóttir og ég, forsetar klúbbanna, settu fundinn og síðan tóku kynningar á klúbbunum við. Ásthildur Pálsdóttir kynnti sinn klúbb, IW Breiðholt og Ragnheiður Ásta Magnúsdóttir sá listavel um kynningu á IW Keflavík. Lena Rist sá um undirspil við söng fundargesta og vinkona Hólmfríðar, Djákninn Unnur Halldórsdóttir, rifjaði upp æskuminningar tengdum jólunum og könnuðust margar konur við svipuð jól frá sinni æsku. Við þetta tækifæri flutti einnig umdæmisstjóri sitt erindi.

Janúar 2016
Þann 10. janúar er dagur Inner Wheel haldinn hátíðlegur víða um heim.
Tilefnið er að þennan dag árið 1924 var fyrsti klúbbur Inner Wheel stofnaður með formlegum hætti. Frumkvöðullinn hét Margarette Golding, en hún hafði hvatt eiginkonur Rotarýmanna til að stofna þjónustusamtök kvenna með áherslu á vináttu og þjónustu.
Þann 9. janúar 2016 hittust 35 IW konur á Hótel Holti og fögnuðu saman þessum degi.  Hótel Holt er staðsetning sem á skírskotun til fyrstu daga Inner wheel á Íslandi, en frumkvöðull okkar hér á Íslandi var Ingibjörg Guðmundsdóttir. Hún beitti sér fyrir stofnun Inner Wheel hér og var einn stofnfélaga IW Reykjavíkur, en stofndagur hans er 15. mars 1973.
IW dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur á Íslandi síðustu árin og hefur mæting í hádegisverð á Holtið aukist ár frá ári. Auk þess er þetta enn einn vettvangur okkar til að kynnast hver annarri og styrkja vináttuböndin.
27. janúar – síðasta formlega heimsókn í klúbb
Þessi dagur markaði 7. heimsókn mína í IW klúbb, en nú var komið að IW Görðum. Þær hittast á hótel Natura (gamla Hótel Lofleiðir). Á þessum fundi var lesið upp úr bókinni á náttborðinu og var margt áhugavert sem þar kom fram. Sérstaklega fannst mér gaman að sjá að bækur með höfundum af Norðurlöndunum öllum voru í uppáhaldi hjá félagskonum okkar í IW Görðum. Á þessum fundi var spurningakönnunin keyrð í fyrsta sinn. En niðurstöður hennar verða kynntar hér á eftir.


Febrúar til mars
Í febrúar hófst undirbúningur fyrir maí þingið okkar fyrir alvöru. Þá skiptum við, í Inner Wheel Keflavík, með okkur störfum og skiptum okkur í 4 þing-nefndir, móttökunefnd, fundargagnanefnd, skemmtinefnd og kaffinefnd. Með þessum hætti hófst formlegur undirbúningur þingsins. Einnig hélt ég áfram að kynna spurningakönnunina og lagði hana fyrir í nokkrum klúbbum og fékk aðstoð með aðra.
Mars
Mars einkenndist í ríkara mæli af undirbúningi vegna þings og einnig var spurningakönnunin ríkjandi hér. Ég tók einnig þá ákvörðun að skrá mig á Nordic Rally í Danmörku og byrjaði þá vegferð með því að bóka hótelið. Svo var að borga gjaldið og síðast að finna flugrúntinn  Í mars heimsótti ég líka IW Selfoss og IW Reykjavík með spurningakönnunina. Marsfundur IW Reykjavík heldur jafnframt árshátíð í mars og þar var ég aldeilis heppin að taka þátt í happadrætti og styrkti þar með Rjóðrið á óbeinan hátt ásamt því að fara heim með tvo veglega happadrættisvinninga.


Apríl og maí
Á stjórnarfundi umdæmisstjórnar var tekin sú ákvörðun að senda fulltrúa á Evrópufundinn sem haldinn verður á Ítalíu. Þetta verður fyrsti Evrópufundur sem Ísland tekur þátt í. Ég fer utan þann 6. júli. Fundurinn er haldinn á föstudeginum og laugardeginum og heimferð þann 10. júlí. Á þessum fundi mun ég kynna niðurstöðu könnunarinnar okkar. Fulltrúar nokkurra annarra landa munu einnig kynna þróun IW í sínum löndum. Það verður án efa áhugavert að sjá þróun IW innan annarra landa og bera saman við þróun hér á Íslandi.
Alþjóðaþingið í maí 2015, Umdæmisþingið okkar í ágúst 2015, Norræni fundurinn í september, Inner Wheel dagurinn í janúar 2016, Umdæmisþingið okkar í maí 2016, Evrópufundurinn á Ítalíu í júlí 2016 og Nordic Rally á Skagen í Danmörku í september 2016.

Þakkir….

Kristjana E. Guðlaugsdóttir umdæmisstjóri Inner Wheel Keflavík

miđvikudagur 20 september 09 2017
Nýjustu fréttir
Í bréfi sínu segir Dr. Kapila Gupta meðal annars að ekki eigi að skilgreina konur eftir því hverjar...
18. alþjóðráðstefnan verður í Melbourne í Ástralíu.Val Corva, sem er er...
Kæru Inner Wheel félagarUmdæmisþingiðNú þegar styttist í vorið stefnir hugurinn til...